news

Leikurinn

14 Maí 2020

Leikur er meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn.

Í leik geta börn unnið með og gert tilraunir með hugmyndir sínar og öðlast nýjan skilning og nýja þekkingu. Í leik skapast vettvangur þar sem spurningar vakna og börn leysa vandamál sem upp koma, á eigin forsendum. Í leik eflast vitrænir og skapandi þættir. Leikurinn kallar á fjölbreytta notkun tungumálsins, hreyfingu, félagsleg samskipti og tilfinningatengsl. Leikur getur virkjað sköpunarkraft barna og löngun þeirra til að læra og afla þekkingar.

Leikur getur verið bæði markmið og leið í leikskólastarfi. Námssvið leikskólans fléttast inn í leik barna.

Aðalnámskrá leikskóla 2011