news

Stefna skólans/hugmyndafræði

18 Maí 2020


Hlutverk leikskóla er meðal annars að búa börnin undir áskoranir og verkefni daglegs lífs og hjálpa þeim að fóta sig í flóknu samhengi náttúru og samfélags, hluta og hugmynda. Leikskólabörnum þarf að standa til boða fjölbreyttir námshættir og þau þurfa að fá tækifæri til að öðlast námshæfni sem byggir á eðlislegri forvitni barna, áhugahvöt, trú á eigin getu og hæfileika til að beita hæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan og örvandi hátt. Námsumhverfi þarf að vera í senn hvetjandi og örvandi, þar þarf að ríkja lýðræði, samvinna og virðing fyrir einstaklingnum og hæfileikum hans. Umhyggja fyrir fólki, dýrum og umhverfi er mikilvægur þáttur í öllu uppeldi. Leikskólanum ber að rækta þau viðhorf, styrkja þau og hlú að í hvívetna (Aðalnámskrá leikskóla 2011)

Leikskólinn Arnarberg byggir hugmyndafræði sína á kenningum uppeldisfræðingsins John Dewey (1859 – 1952). Þær kenningar falla vel að þeirri hugsun sem fram kemur hér að framan og byggir á því að börn séu þátttakendur og að allt nám eigi sér stað með tilstyrk reynslu. Einkunnarorð Deweys voru „að læra með því að framkvæma“ og lýsa þau vel hugsun hans til náms barna. Hann lagði mikla áherslu á að kennarinn spyrði spurninga og leitaði eftir þekkingu barnanna hverju sinni þannig að hann gæti skapað aðstæður til að auka þekkinguna. Dewey lagði áherslu á að börn fengju að reyna því sá sem öðlast reynslu er virkur og í virkni felst bæði athöfn og afleiðing. Við teljum mikilvægt að virkja börnin sem kostur er, veita áhuga þeirra athygli og vinna út frá því. Mikilvægt er að flétta saman ólíka þætti og vinna þá saman út frá ólíkum sviðum s.s. þegar unnið er með læsi í gegnum tónlist eða myndlist má flétta saman umhverfi og menningu. Nauðsynlegt er að koma til móts við einstaklinginn eins og hann er og mæta honum á þeim stað sem þroski hans leyfir. Nota fjölbreyttar leiðir í kennslu þannig að hvert barn finni eitthvað við sitt hæfi. Það er hlutverk okkar að skapa tækifæri þannig að börnin geti þroskast eðlilega og að þau fái notið bernsku sinnar og verði hæfir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu