Leikskólinn Arnarberg tók til starfa í núverandi mynd við Haukahraun 2 í Hafnarfirði í ágúst 2003, en áður var hann starfsræktur í tveimur húsum. Leikskólinn er fjögurra deilda með u.þ.b. áttatíu börn og um þrjátíu starfsmenn. Umhverfi leikskólans er rólegt og friðsælt og nýtur hann góðs af frábærri staðsetningu innst í botnlanga, þar sem umferð og umferðarhraði er í lágmarki.

Húsnæði skólans er gott, fjórar deildir og salur. Hver deild samanstendur af góðri leikstofu ásamt tveimur minni herbergjum og salerni. Fataklefar eru samliggjandi fyrir tvær deildir. Garðurinn er stór og stendur að hluta til í skjóli hraunsins í djúpri dæld á móti suðri.

Leikskólinn gerðist forystuskóli í læsishvetjandi umhverfi árið 2008 og gegndi því hlutverki í fimm ár. Það byggir á sýnilegu ritmáli, markvissri málrækt og á lestri bóka, sem styður við áhuga barna á rituðu máli og opnar augu þeirra fyrir því í umhverfinu. Læsishvetjandi umhverfi og markviss málrækt er mikilvægur undirbúningur fyrir lestrarnám og um leið forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum. Haustið 2014 tók leikskólinn nýjar viðbætur þessu tengdu og tileinkaði sér aðferð sem nefnist K-pals, pör að læra saman. Aðferðin gefur kennurum kost á að örva og þjálfa samtímis hóp barna (elsti árgangur) í hljóða- og stafaþekkingu og lestri með jafningjamiðlaðri nálgun (félagakennslu).

Einkunnarorð skólans eru „Læsi er leikur“